Tungufells faldbúningurinn

Það hafði lengi blundað í mér að sauma skautbúning en það hafði verið fjarlægur draumur.  Þegar ég var að þrífa Tungufellskirkju og undirbúa fyrir messu haustið 2013 fékk ég þá hugmynd að nota skreytingarnar á altarinu og umgjörð altaristöflunnar til að sauma á búning.  Þessa hugmynd viðraði ég svo við Hildi í Annríki í messunni.  Hún taldi að þetta gæti alveg passað inní þau módel sem eru í kringum íslenska þjóðbúninginn þar sem kirkjan er frá síðasta tímabili faldbúningsins.

Ég skráði mig á þriggja ára nám20160415-P4157198.jpgskeið sem hófst í Annríki í janúar 2014.  Umsjónarmaður þessa námskeiðs var Guðrún Hildur Rosenkjær í Annríki í Hafnarfirði.
Í fyrstu var erfitt að sjá fyrir sér hvernig verkefnið ætti að þróast, en með aukinni fræðslu og stuðningi frá Hildi þróaðist hugmyndin í það verkefni sem nú er að verða lokið.

Það munstur sem haft er að leiðarljósi við gerð þessa faldbúnings er teiknað upp eftir altarinu í Tungufellskirkju. Munstrið er að finna bæði á altarinu sjálfu og einnig á umgjörð altaristöflunnar og á altarisbríkinni. Til að teikna munstrið tók ég myndir af því og vann myndirnar þannig að ég gæti teiknað það upp og Hildur setti það svo niður til að stimpla á pilsið.

20160415-P4157219.jpgTungufellskirkjan er byggð árið 1856 en myndirnar á altarinu eru taldar frá fyrri kirkju sem var reist 1831, en þær eru málaðar af Ófeigi Jónssyni frá Heiðarbæ í Þingvallasveit.

Faldbúningurinn tilheyrir síðasta tímabili faldbúninga áður en skautbúningurinn ruddi sér til rúms í kringum 1860.  Það sem einkennir það tímabil er t.d. að þá voru pilsin orðin svört og treyjan síðari.  Einnig var spaðafaldur notaður við 19. aldar faldbúningana.

Pilsið.

20160415-P4157205.jpgPilsið er saumað úr svörtu ullarefni sem er meðal þykkt.  Það er samfella sem er brydduð með rauðu ullarefni.  Munstrið er saumað með blómstursaumi úr Zaphir ullargarni.  Pilsið er að hluta fóðrað með rósóttu skófóðri sem einnig er notað innaná pilsstrenginn.
Ég fékk pilsið í hendurnar 2. maí 2014 og lauk við útsauminn í júlí 2015, það tók því um 15 mánuði að sauma út í pilsið og var það mjög skemmtilegt verk.

Upphluturinn.

20160415-P4157208.jpgUpphluturinn er saumaður úr rauðu ullarefni og bryddaður með grænu silki.  Hann er hefðbundinn 19. aldar upphlutur.  Hann er skreyttur með bláum flauelisborða og gylltri snúru að aftan en að framan eru baldýraðir borðar.  Ég baldýraði sjálf borðana og breytti munstri sem var til þannig að ég tók efsta hluta blóms af umgjörð altaristöflunnar og setti það í stað blóms sem var á munstrinu.  Á upphlutnum eru gylltar englamillur að hluta til gamlar og að hluta til steyptar af Ásmundi Kristjánssyni í Annríki.
Upphluturinn var saumaður á námskeiði sem haldið var á Flúðum í janúar til apríl 2015, Hildur var leiðbeinandi á því námskeiði. Þá var einnig saumað svart hefðbundið ullarpils ásamt blússu og svuntu til að hægt væri að nota hann sem 19. aldar upphlut.

Blússan.

Blússan er saumuð úr kremuðu bómullarsatíni með hefðbundnu 19. aldar sniði.

Beltið.

20160415-P4157207.jpgBeltið er svart flauelisbelti fóðrað að innan með sama efni og skófóður og bryddað með grænu silki.  Á því eru gylltar stansaðar doppur og gyllt beltispar.  Doppurnar og beltisparið er keypt gamalt.

Treyja.

Treyjan er saumuð úr svörtu ullarefni með hefðbundnu sniði.  Hún er skreytt með flauelisskornum og perlusaumuðum borðum að framan,  undir flauelisskurðinum er blátt silki.  Það munstur er fengið úr safni Hildar í Annríki en það er upprunalega á faldtreyju/skauttreyju sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu, munstrið tónar alveg við þau munstur sem fyrir eru á búningnum en það er blómamunstur líkt og á baldýringunni og pilsinu.

Kragi.

Kraginn er flauelisskorinn og perlusaumaður með bláu silki í grunninn.  Hann er með sama munstri og skreytingin framan á treyjunni.

 

Höfuðbúnaður.

20160415-P4157209.jpgAnnars vegar er notuð 19. aldar skotthúfa með faldbúningi.  Skotthúfan sem ég nota er prjónuð af Guðrúnu Alfreðsdóttur og við hana er rauður skúfur.  Enginn hólkur er á henni en í staðinn er saumaður Líberyborði.

Hins vegar er notaður spaðafaldur en hann er í vinnslu 🙂

Elín Jóna Traustadóttir
Tungufelli, Hrunamannahreppi.

 

Bókin um Tungufells faldbúninginn er hægt að panta hér og lesa nánar um sögu hans og tilurð.