WordPress í skólastarfi

24 Jul

Ég hef undanfarin ár starfað sem kerfisstjóri í grunnskóla og einnig kennt þar upplýsingatækni.  Fjalar vitnar á bloggi sínu  í könnun sem Microsoft kostaði til að bera saman Microsoft hugbúnaðinn og Open Sourse.  Að sumu leiti er það rétt að Microsoft er hentugra sem grunnkerfi í grunnskólum því algengast er að á heimilum landsins er tölva með Microsoft hugbúnaði og þessir tveir aðilar þurfa að geta talað saman.  Ég er aftur á móti með Open Sourse kerfi í mínum skóla sem snýr að vefsíðu, bloggi, myndbirtingu og eldvegg og finnst mér þetta sambland mjög gott.  Í þessum skrifum mínum ætla ég að lýsa fyrir ykkur hvernig ég samtvinna WordPress bloggkerfið inní skólastarfið með mjög góðum árangri.

Það var búinn að vera þrýstingur frá stjórnendum skólans og foreldrum að kennarar yku upplýsingaflæði til foreldra.  Það var ekki einfalt fyrir kennara að auka þetta flæði nema með auknum tölvupóstsendingum og brugðu sumir á það ráð.  Mér datt í hug í öllum þessum bloggumræðum að kannski væri það eitthvað sem kennarar gætu nýtt sér.  Ég setti upp bloggsíður fyrir hvern bekk og um helmingur umsjónarkennara nýttu sér þennan möguleika á síðasta ári og setti ég mér það markmið að allir umsjónarkennara munu nýta sér þetta næsta skólaár.

Bloggkerfið WordPress er mjög einfalt í notkun og voru kennara mjög fljótir að tileinka sér notkun þess.  Hægt var að nota myndir úr myndasafni skólans og varð það til þess að foreldrar fengu að sjá eitthvað af þessum þúsundum mynda sem teknar eru í skólanum ár hvert.  Til að birta myndirnar á vefnum nota ég Gallery2 sem er afar hentugt OSS kerfi.

Ég hef aðeins verið að kynna mér MU WordPress eða Multi User WordPress. Til að takmarka vinnu við að uppfæra og setja upp bloggsíður þá ætla ég að setja bloggsíðurnar upp í því kerfi.  MU WordPress er byggt á WordPress og er gætt flestum þeim eiginleikum sem bloggkerfið hefur.  Það er búið að íslenska WordPress og íslenskan gengur einnig í MU WordPress.  Með því að hafa MU WP þá er hægt að íslenska einnig sniðin og kennari getur valið sér sitt eigið snið á sína bekkjarsíðu.

Ég hvet alla sem hafa eitthvað með samskipti heimila og skóla að gera að kanna þennan möguleika.  Kennararnir sem notuðu þetta hjá mér voru mjög ánægðir og einnig foreldrar.  Það kom fram í vor við skýrslugerð kennara að þarna var komin dagbók sem hægt var að nota við gerð skýrslunnar.

Mikill kostur var einnig að nemendur geta skrifað inná bloggsíðurnar undir eftirliti kennara og nýttum við okkur það í 2.-4. bekk þar sem sérstakir bloggarar vikunnar voru valdir og þau blogguðu saman einhvað úr því sem gerst hafði í líðandi viku.

Ég vildi að hægt væri að nýta sér ýmsar upplýsingar úr t.d. Mentor inní OSS kerfi en ég á eftir að skrifa meira um það síðar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *